"LISTAMENN vinna að list sinni á tvennan hátt. Annars vegar má líkja þeim við dægurflugur, sem gera eitt í dag og annað á morgun; viðfangsefnin eru síbreytileg eins og veðrið, og vinnuferlið tekur stakkaskiptum í samræmi við þau. Hinir eru þó fleiri ­ og oftar en ekki áhugaverðari ­ sem vinna á mun kerfisbundnari hátt; þeir takast á við ákveðin viðfangsefni, rannsaka þau og grandskoða með ýmsum hætti, þar til þeir telja sig hafa komist eins langt og hægt er með þær listrænu úrlausnir, sem viðfangsefnin hafa kallað fram. Síðan er afraksturinn sýndur opinberlega áður en haldið er áfram á vit frekari þróunar innan myndverksins." Það er rétt að hvetja sem flesta til að leggja leið sína í Norræna húsið og fylgjast með þróun málverksins hjá Margréti Jónsdóttur. Eiríkur Þorláksson