Wednesday, December 8, 2010

SÝNINGAR 2010


"good business is the best art"
IN MEMORIAM Mokka- 3.des 2010 til 13. jan 2011
http://mokka.is/Mokka/Syningar___Exhibitions/Entries/2010/12/3_IN_MEMORIAM.html


Margrét Jónsdóttir listmálari sýnir brot úr myndröðinni IN MEMORIAM sem hefur verið nokkur ár í vinnslu með mismunandi tilbrigðum. Verkin eru unnin með eggtemperu á pappír og eru unnin í París. Hugsunin að baki þeirra er listamaðurinn og svo framleiðslan og listiðnaðurinn því oft er engin sýnileg mörk þar á milli. Margir átta sig ekki á að það eru tveir ólíkir vegir, vegur listamannsins og síðan vegur listiðnaðarmannsins. Margrét notar efni og áhöld sem tilheyra skreytilist og reynir að hafa skrautið sem mest, litina oft skæra, truflandi eða daufa og hlutlausa en lætur síðan rotnunina vinna á myndfletinum svo skrautið dofni og fjari út. Myndirnar gera verið rifnar, myglaðar, götóttar og þær eyðast að sjálfsögðu með tímanum eins og allt annað í veröldinni.
Núna er verið að markaðsvæða listina og finna henni tilgang og er það gert með því að meta verðmætin í einhverju sem allir geta skilið eða peningum “Skapandi geirinn veltir 191 milljarði á ári sem er mun meira en landbúnaðurinn og fiskveiðarnar samanlagt” en andleg gildi virðast vera heldur léttvæg í dag. Hinsvegar ef listamaðurinn er ofurseldur markaðinum verður hann að iðnaðarmanni og framleiðir fyrir markað í stað þess að horfa á veröldina gagnrýnum augum. Það nöturlega við þetta allt er að verkin verða verðlaus með tímanum því allt sem er skapað er hluti af hisminu sem við hlöðum í kringum okkur.

Margrét hefur starfað að myndlist í um 40 ár. Haldið fjölda einkasýninga, stundað kennslu, grafíska hönnun, rekið gallerí var m.a. ein af stofnendum Gallerís Suðurgötu 7 sem var mikilvæg miðstöð í þróun framlínumyndlistar á Íslandi, auglýsingastofu og gert upp nokkur hundruð ára hús í Frakklandi. Hún hefur unnið í flesta miðla myndlistarinnar enda með langa og víða menntun á mörgum sviðum ásamt margra áratuga reynslu. Margrét er menntuð við Myndlista- og Handíðaskóla Íslands, Saint Martins/Central Saint Martins Collage of Art í London og Kennaraháskólann. Hún hefur haldið hátt á fimmta tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis

Með viljann að vopni - Endurlit 1970 - 1980 4. september - 7. nóvember. Kjarvalsstaðir. http://www.artlyst.com/events/mea-viljann-aa-vopni-endurlit-1970-1980
Hér er hægt að horfa á fréttir um sýninguna: http://www.ruv.is/frett/kvennabarattan-i-myndlist
Víðsjá, umfjöllun um sýninguna: http://dagskra.ruv.is/ras1/4557238/2010/09/05/
"Ótrúlegur sprengikraftur, maður þekkir flest, og kannast við flesta listamennina, samt er ein og ein sem ég hef ekki tekið eftir": http://blogg.visir.is/jarl/2010/09/05/með-viljann-að-vopni-flott-syning-a-kjarvalsstoðum, Listasafn Reykjavíkur/
Áhugaverð gagnrýni um sýninguna "Með viljann að vopni" sem er á Kjarvalsstöðum sjá: http://dagskra.ruv.is/ras1/4555518/2010/09/08/  

Kvennaáratugurinn svokallaði markaði djúp spor í íslenska sögu en tímamótanna er minnst á sýningunni með verkum eftir rúmlega tuttugu íslenskar konur. Markmiðið sýningarinnar er að varpa ljósi á listsköpun kvenna á þessum áratugi með áherslu á þau fjölbreyttu efnistök sem þær notuðu til að koma áleiðis skilaboðum sínum og uppgjöri við gamla tíma.
Á sýningunni er þess minnst að 40 ár eru frá stofnun Rauðsokkahreyfingarinnar og jafnlangt er síðan kona var fyrst skipuð ráðherra á Íslandi (Auður Auðuns).
Þá eru 35 ár liðin frá Kvennafrídeginum og 30 ár frá kjöri Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands. Einnig eru 80 ár liðin frá því að Landspítalinn tók til starfa, en konur áttu drjúgan þátt í því að hann var stofnsettur.
Síðast, en ekki síst, þá eru 100 ár liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt í bæjar- og sveitarstjórnum. Vönduð bók prýdd fjölda mynda verður gefin út samhliða sýningunni og staðið verður fyrir fjölmörgum viðburðum á sýningartímabilinu.
Sýningarstjóri er Hrafnhildur Schram, sjá: http://www.listasafnreykjavikur.is/desktopdefault.aspx/tabid-2182/3369_read-1663/date-1564/

Margrét Jónsdóttir, Upp, upp, mín sál og allt mitt geð ...  Eggtempera á pappír 1978
Myndröðin sem ég sýni þarna byggist á upplifun og innsæi á þeim tíma þegar ég kom heim frá framhaldsnámi í London en það var menningarlegt áfall að koma heim. Listmenntun hafði lítið gildi og vorum við talin illa menntuð og höfðum enga möguleika til eins né neins. Veggir alsstaðar, hroki, yfirgangur og erfitt að gera neitt nema með klíkuskap og þá oftast ættartengslum. Myndröðin er tákn um ofríki, vald og þröngsýni en á þessum tíma voru karlmenn í flestum valdastöðum, síðan þegar konum tók að fjölga í áhrifastöðum og eitthvað kom sem kallaðist “jafnrétti” þá var í raun enginn munur því sömu stjórnhættir voru notaðir, menningarheimur karla var ráðandi og er enn í dag.
Þessar myndir fóru óskaplega í taugarnar á fólki á sínum tíma og ollu miklum pirringi.

Nordisk Akvarell 2010 i Nordens Hus i Reykjavik.

Sýningin Nordisk Akvarell er haldin þriðja hvert ár á einhverju Norðurlandana, í ár var hún haldin á Íslandi. Sýningin var hluti af Norrænni menningarviku sem haldin var í Norræna húsinu í haust. http://www.nordice.is/vidburdir/allt/vidburdir/2010/10/28/nr/651
Myndin sem ég sýndi var úr myndröðin "SHIT!" eða "LISTMARKAÐURINN" hefur verið í vinnslu frá 1997 og lýsir upplifun minni af veruleikanum á Íslandi. Hvernig það er að vera myndlistarmaður og kona. Á tímabili hélt ég að upplifanir mínar væru geggjun en með hruninu kom viðbjóðurinn upp á yfirborðið og ætlar engan enda að taka. Að sjálfsögðu er um tvíræða merkingu að ræða. Það er t.d. ekkert grín að fá hávaðasama bensínstöð með vöruflutningum að næturlagi og búllu við hliðina á heimili sínu, upplifa að það er blásið á allar kvartanir þótt sé verið að brjóta lög, reglugerðir og hávaðamörk. Heimilin í landinu hafa aldrei haft neitt að segja þegar auðvaldið er annars vegar eða hagsmunir peningavaldsins og þegar "kona" kvartar er blásið á hana! Það sama á við í listum núna "MARKAÐURINN" er að drepa "listina". Hluti úr myndröðinni hefur verið sýnd á sýningunni Ferðafurða Listasafn Reykjavíkur 2003 Kjarvalsstöðum, opnum vinnustofum á Korpúlfsstöðum, Listasafni ASÍ, Landakotsspítala og Nordisk Akvarell 2010 í Norræna Húsinu.