Saturday, December 18, 2021

HUGSKYNJUN NÁTTÚRUNNAR

HUGSKYNJUN NÁTTÚRUNNAR 

Arna Gná Gunnarsdóttir - Margrét Jónsdóttir

SÍM salurinn Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík

Þetta er önnur sýning Örnu og Margrétar en sú fyrri nefndist Blóðbönd og var í Grafíksalnum í Tryggvagötu árið 2017. HUGSKYNJUN NÁTTÚRUNNAR er einhverskonar áframhald. Listakonurnar eru tengdar ýmsum böndum, bæði blóðböndum og myndlistarböndum. Báðar sækja þær innblástur til Frakklands en þær starfa báðar að list sinni á Íslandi og Frakklandi. Þrátt fyrir að vinna ekki með sömu miðla vinna þær oft með sömu viðfangsefni, eins og t.d. líkamann, líkamsvessa, femíniskar hugleiðingar, viðhorf og tilraunakennda heilun og innhverfa íhugun. Sýningin HUGSKYNJUN NÁTTÚRUNNAR er unnin út frá orkunni sem flæðir lífrænt allt um kring, og hvernig náttúra, líkami og samfélag mótar upplifanir og tilfinningar. Verkin á sýningunni setja í form tilviljanakenndar vangaveltur um samfélag manna og samruna þess við náttúruna. Listakonurnar vinna með þetta flæði með því að gera það sýnilegt og formfast með þeim miðlum, efni, formi og litum sem þær vinna með sem er málverk á pappír og textíl skúlptúrar.


Myndlistarkonurnar Arna Gná Gunnarsdóttir og Margrét Jónsdóttir opna samsýninguna,  HUGSKYNJUN NÁTTÚRUNNAR, í SÍM salnum (sal Sambands Íslenskra myndlistarmanna) í Hafnarstræti, fimmtudaginn 2. desember kl. 17:00. Um er að ræða aðra samsýningu þeirra Örnu Gná og Margrétar en áður sýndu þær sýninguna Blóðbönd í Grafíksalnum, Tryggvagötu árið 2017 og er  HUGSKYNJUN NÁTTÚRUNNAR framhaldssýning. Arna Gná og Margrét eru tengdar ýmsum böndum, bæði eru þær náskyldar en einnig eru þær að fást við svipaða hluti í sinni myndlist þrátt fyrir að nálgast viðfangsefnið á ólíkan hátt. Báðar sækja þær innblástur til Frakklands þar sem þær hafa búið og starfað um árabil og er þeim líkaminn, femínískar hugleiðingar, tilraunakennd heilun og innhverf íhugun hugleikin. Einnig leitast þær við að takast á við birtingarmynd á hinum ýmsu innrænu og útrænu öflum sem sífellt takast á í náttúrunni. Það hefur alla tíð verið manninum til trafala hversu lítinn skilning á náttúrunni hann hefur þrátt fyrir að tengjast henni órjúfanlegum böndum og leitast sífellt við að máta sig við hana. Heiti sýningarinnar  HUGSKYNJUN NÁTTÚRUNNAR vísar til þessarar tengingu mannsins við náttúru og er unnin út frá orkunni sem hverfist um mannslíkamann og náttúruna sem lífrænt flæði, orku sem mótar upplifanir okkar og tilfinningar. Á tíma vísinda- og upplýsingaraldarinnar var markmið mannsins að sigrast á almennum ótta gagnvart óheflaðri náttúrunni og finna leiðir til þess að greina hana og skilja svo hægt væri að drottna betur yfir henni og móta að eigin þörfum. Stuðlaði sú þróun að aftengingu mannsins við náttúruna og eigin líkama. Heimspekingurinn Páll Skúlason fjallaði um tengsl manns og náttúru. Hann skoðaði sérstaklega andlegan skilningur á náttúrunni sem hver og einn getur öðlast í gegnum eigin reynslu af því að upplifa hana og þeim tilfinningum sem náttúruna vekur upp í þeim. Verkin á sýningunni túlka á myndrænan hátt tilviljanakenndar vangaveltur um samfélag manna og samruna þess við náttúruna. Myndlistarkonurnar vinna með flæði orku umhverfis og samfélags, túlka á myndrænan hátt tengingu manns við náttúruna og þeirri tilfinningu að miðla þeim skilaboðum sem náttúruna gefur frá sér. Á sýningunni gefst gestum tækifæri til að skyggnast inn í myndheim þeirra Örnu Gná og Margrétar en þar má finna vatnslitaverk á pappír, textílskúlptúra sem unnin voru á tveggja ára tímabili. 
Ásdís Spanó