Sunday, April 28, 2019

MYNDBIRTING ÞJÁNINGARINNAR

SÍMsalurinn - 9 til 27 maí 2019.
Hér er síðan Margrét Jónsdóttir á facebook: 
https://www.facebook.com/margretjons.is/
Hér er síðan Margrét Jónsdóttir listmálari á facebook:
https://www.facebook.com/Margr%C3%A9t-J%C3%B3nsd%C3%B3ttir-listm%C3%A1lari-288764417867954/

Ekki merkileg umfjöllun sem ég fæ en betra en ekkert.
 
 
Þakklát fyrir að Morgunblaðið birti fréttatilkynningu frá mér.
 
Árituð veggspjöld frá árinu 1986 eru til sölu á sýningunni í SÍMsalnum verð: 10þús. með ramma ..hafið samband við mig á facebook.

Myndbirting þjáningarinnar sprettur upp úr upplifun minni við að eldast og slitna sem starfandi myndlistarmaður á Íslandi en flest okkar öflum tekna til lífsviðurværis í öðrum störfum. Álagið getur verið mikið allan starfsferilinn því laun kvennastéttanna eru oftast það lág að dagvinna dugar ekki til. Það er ástríðan sem heldur mér gangandi en ég hef unnið óslitið að listsköpun allan minn feril. Skynjun listamannsins er næmari og dýpri en gengur og gerist enda krefst listformið mikillar einveru, hugsanir umbreytast í orku, form, liti og blandast við tilfinningar næmi og innsæi. Listin er mín trúarbrögð, ég trúi á fegurðina og listina sem er mannbætandi og upplifi stöðugt að lífið er ein heild, líkami, tilfinningar, hugur, menn, jurtir og dýr …allt samofið. Veruleikinn er hins vegar streð í menningarsnauðu umhverfi nánast allan starfsferillinn en undanfarna áratugi hef ég verið að sá og planta í grófan og snauðan jarðveg þar sem flest er flokkað, metið og mælt út frá peningum, græðgi og án hugsjóna. Það sem ég hef upplifað í gegnum ferilinn er fyrirlitning til kvenna, myndlistar og listmenntunar, reynslu og lífsstarf fólks sem er orðið of gamalt fyrir æskudýrkunina og hlýtur því vanvirðingu frá samfélaginu. Jante lögmálið í fullu gildi eins og svo oft áður en sumir segja í háði að lögmálið komi í stað boðorðanna tíu á Íslandi. 
 Boðorðin tíu í lauslegri þýðingu: 
1. Þú skalt ekki halda að þú sért eitthvað.   
2. Þú skalt ekki halda að þú sért eins mikil og við.  
3. Þú skalt ekki halda að þú sért klárari en við.  
4. Þú skalt ekki ímynda þér að þú sért betri en við.  
5. Þú skalt ekki halda að þú vitir meira en við.  
6. Þú skalt ekki halda að þú sért meira virði en við. 
 7. Þú skalt ekki halda að þú dugir til neins.  
8. Þú skalt ekki hlæja að okkur. 
 9. Þú skalt ekki halda að nokkur kæri sig um þig. 
10. Þú skalt ekki halda að þú getir kennt okkur neitt. 
(Jante lögmálið úr gamalli grein eftir Elías Snæland Jónsson í lauslegri þýðingu hans) 

Margrét er fædd í Reykjavík 1953 og hefur starfað sem myndlistarmaður í tæp 50 ár og stundað kennslu í 27 ár bæði við framhaldsskóla, grunnskóla og Myndlistarskóla Kópavogs, unnið við grafíska hönnun og rekið auglýsingastofu. Menntuð við Myndlista og handíðaskóla Íslands, diplóma í frjálsri myndlist og síðar diplóma í grafískri hönnun, mastersnám við Central Saint Martins Collage of Art í London og diplóma frá Kennaraháskólanum. Margrét hefur haldið á fimmta tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Einn af stofnendum Gallery Suðurgötu 7 sem var mikilvæg miðstöð í þróun framlínumyndlistar á Íslandi. Einn af stofnendum Hagsmunafélags myndlistarmanna sem var undanfari Sambands íslenskra myndlistarmanna ásamt stofnun SÍM. Verk eftir Margréti eru í eign helstu listasafna landsins og hefur hún hlotið ferðastyrki og starfslaun listamanna og er  hennar getið í ritinu Íslensk listasaga sem er fimm binda verk og spannar tímabilið frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar.  Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur sagði m.a. um verk Margrétar í einni sýningarskránni:„Óhætt er að segja að viðhorf Margrétar Jónsdóttur til myndlistar hafi sjaldan rúmast innan ráðandi sjónarmiða í hérlendu myndlistarumhverfi til þess er henni einfaldlega of mikið niðri fyrir. Með tjáningu þessara viðhorfa hefur hún iðulega staðið berskjölduð og fullkomlega tillitslaus og jafnframt fullkomlega heiðarleg gagnvart sjálfri sér og áhorfendum.“   

Merki sem ég gerði fyrir 1990 til að reyna að aðgreina mig frá öllum nöfnunum mínum í listageiranum en þegar ég hóf ferilinn var engin með þetta nafn svo óþarfi var að aðgreina sig.

Það þarf bæði tíma og peninga til að vinna sem myndlistarmaður sem er helvíti erfitt en ef það tekst ekki þá gerist afskaplega lítið í þróun listamannsins. Það þarf að einangra sig til að geta þróað hugmyndir og einhverja tilfinningu sem ekki eru til orð yfir ....það er svo langt frá því að starfa sem myndlistarmaður sé einhver skemmtun.