Tuesday, August 22, 2017

1996 Leyndardómur tilverunnar NorrænaHúsið Fremri salur


Einkasýningin Lífsvatnið og Móðurskautið djúpa í Norræna húsinu 1996. 
 "Eitt af því sem ég hef verið að vinna með er lífsvatnið, lífsuppspretta, og vatnið við fæðingu og dauða. Einnig hef ég gaman af að velta fyrir mér hughrifum, hugsun og umbreytingu hugsana í form. Þú varpar frá þér hugsun og hún svífur og raðast í kringum þig eins og kyrralífsmynd, "Still life". Það sem þú hugsar lifir, eyðist ekki, heldur lifir í annarri vídd í litum og formum. "Allt, sem vér erum, er skapað af hugsunum vorum".

Myndröðin var m.a. sýnd í NorrænaHúsinu 1994 og í Hafnarborg 1999. Einnig á opnum vinnustofum á Korpúlfsstöðum meðan ég hafði vinnustofu þar svo margir eiga að hafa séð þessi verk.

5. nóvember 1996 "Margrét Jónsdóttir vinnur mjög kerfisbundið að sínu málverki, og þá gjarna í röðum mynda, sem skapa sterkar heildir og tengja verk hennar saman, og því er áhugavert að fylgjast með þeirri glímu við efnið og andann, sem þar fer fram. Á þessari sýningu má greina þrjá flokka málverka, en um þau viðfangsefni segir listakonan í inngangi að sýningunni:
"Eitt af því sem ég hef verið að vinna með er lífsvatnið, lífsuppspretta, og vatnið við fæðingu og dauða. Einnig hef ég gaman af að velta fyrir mér hughrifum, hugsun og umbreytingu hugsana í form. Þú varpar frá þér hugsun og hún svífur og raðast í kringum þig eins og kyrralífsmynd, "Still life". Það sem þú hugsar lifir, eyðist ekki, heldur lifir í annarri vídd í litum og formum. "Allt, sem vér erum, er skapað af hugsunum vorum"."
Myndröðin "Lífsvatnið" kom fyrst fram á sýningu Margrétar á sama stað fyrir þremur árum, og virkar hér enn sterkari en fyrr. Örsmáar og gríðarstórar myndirnar skapa gott jafnvægi í rýminu, þar sem öryggi og hlýja geisla af grænum sverðinum, sem vatnið sprettur fram úr, ýmist í litlum lækjarsytrum eða kraftmeiri fossum; einkum verða litlu myndirnar nr. 2, 3, 6 og 18 athyglisverðar í þessum samleik.
"Móðurskautið djúpa" er nýr myndaflokkur, sem samsamar þessa hlýju, grænu tilveru náttúrunnar hlutverki konunnar sem móður mannkyns og þar með þess anda, sem með því býr. Í því skauti er að finna bæði upphaf og þungamiðju þeirra hughrifa og hugsana, sem listakonan getur síðan breytt í form sem má raða með ýmsum hætti í kringum sig ­ og þar með eru komin fram þau tengsl sem gera sýninguna að einni heild, því síðasti myndaflokkurinn, "Still Life", er fyrst og fremst samröðun forma, sem eru hvort tveggja í senn ókunn og kennileg, framandi og hversdagsleg".