Tuesday, February 13, 2024

MENNINGARVITINN áhrif verksins á vinnuumhverfi Ráðhúss Reykjavíkur

 

Svo skemmtilega vill til að einn nemandi minn á vatnslitanámskeiði í Myndlistaskóla Kópavogs fór að googla hvaða manneskja þetta væri sem kenndi henni. Þrátt fyrir að ég hafi 50 ára farsælan starfsferil sem myndlistarmaður þá er ég algjörlega óþekkt og fæ til dæmis varla fréttatilkynningu birta á fjölmiðli, hvað þá viðtal! Kolbrún komst að því að uppáhalds verk hennar var eftir mig og sagði mér því skemmtilegar sögur og uppákomur vegna verksins úr Ráðhúsinu. Bað ég hana að skrá þetta og senda mér því sögurnar tilheyrðu verkinu og ætti að fylgja því. Hér fyrir neðan er fróðlegt bréf hennar um áhrif verksins á vinnuumhverfi Ráðhúss Reykjavíkur.

Sæl

Sendi þér lýsingu á því hve sterk áhrif verk þitt hafði á vinnuumhverfi okkar. 

Tveimur árum eftir að Ingibjörg Sólrún varð borgarstjóri í Reykjavík. Fengum við að láni frá Kjarvalstöðum málverk eftir Margréti Jónsdóttur Menningarvitann. Verkinu var komið fyrir á minnst 5 metra vegg við enda áhorfendapalla í borgarstjórnarsalnum sem áður var staðsett í Skúlatúni 2.  Pálmar Kristmundsson arkitekt endurhannaði þennan hluta salarins og við vorum þrír starfsmenn á Byggingadeild Borgaverkfræðings sem fengum skrifstofuaðstöðu í þessu glæsilega opna skrifstofurými sem var í langt og bogadregið.  

Málverk af landslagi voru hér og þar í móttökum ýmissa deilda Borgarverkfræðing.  Á einkaskrifstofum mátti jafnvel sjá klassísk málverk af nöktum konum. Á þessu tímabili fór mér að þykja óþægilegt/niðurlægjandi að sitja framan við  af naktri konu í samtali við yfirmann á móti mér hinum megin við skrifborðið. En við sem störfuðum hjá opinberum stofnunum gátum pantað verk frá Kjarvalstöðum til að hafa kringum okkur. Þegar til stóð að velja verk í okkar nýja skrifstofurými. Í  samtali við Kristínu G. Guðnadóttir listfræðing starfandi á Kjarvalstöðum minntist ég á mismunandi áhrif málverka. Hún  valdi fyrir okkur Menningarvitann sem fór einkar vel í þessum opna skrifstofurými. Hæð verksins er 2 metrar og breidd 50 cm og það var töluverð fyrirhöfn að hengja það upp.

Ekki leið á löngu þar til gætti einhverrar spennu meðal samstarfsmanna, sem leið áttu um vinnuumhverfi okkar. Umræður sköpuðust umræður um hvort túlka mætti málverkið með ýmsum hætti. Mátti líta á vitann sem kynfæri karla t.d. Ástandið á vinnustaðnum varð hálf vandræðalegt um stund. Þetta voru umbrotatímar og konur voru að ryðja sig til rúms hér og þar atvinnulífinu og karlar voru óvanir umgangast konur sem jafningja. Ég var tvístígandi og hugsaði með mér þarf kannski að skila þyrfti verkinu aftur eftir svo stutta viðkomu í Skúlatúni 2. En svo sættist karlpeningur deildarinnar  á að typpið væri reisulegt og því væru gerð góð skil. Aðkomufólk var spurt af og til hvort það skapaði óþægindi að funda  í námunda við málverkið. Oft á tíðum var fátt um svör. Kannski var erfitt að orða sína hugsun við þessar aðstæður.  Seinna kom upp sú hugmynd að fá að láni annað málverk, en það var blásið af með það sama. Mönnum þótti mikil reisn og upphefð að hafa þetta málverk í sínu nánasta umhverfi. 

Kolbrún Oddsdóttir