Listmálarinn Margrét Jónsdóttir er fædd í Reykjavík og starfar að list sinni í Frakklandi og Íslandi. Hún hefur unnið sem myndlistarmaður um hálfa öld en 48 ár eru frá fyrstu sýningu hennar í London. Menntuð við Myndlista og Handíðaskóla Íslands, diplóma í frjálsri myndlist/grafík árið 1974. Masternám (Postgraduate) við Central Saint Martin’s College of Art í London árin 1974 til 1976. Myndlista og Handíðaskóla Íslands, diplóma í grafískri hönnun árið 1984. Diplóma frá Kennaraháskólanum árið 1997. Hún hefur haldið yfir 50 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Margrét var einn af stofnendum Gallery Suðurgötu 7 sem var mikilvæg miðstöð í þróun framlínumyndlistar á Íslandi. Hún er í ritinu „Íslensk listasaga“, sem er fimm binda verk og spannar tímabilið frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Einn af stofnendum Hagsmunafélags Myndlistarmanna sem var undanfari Sambands Íslenskra Myndlistarmanna ásamt stofnun SÍM. Verk eftir hana eru í eigu helstu listasafna landsins. Hefur hlotið ferðastyrki og starfslaun listamanna. Félagi í FÍM, Íslensk Grafík,
SÍM, Nýlistasafninu. Margrét hlaut norræn vatnslitaverðlaun á þessu ári. The Winsor & Newton Prize. Verðlaun Norræna Vatnslitafélagsins/Col Art The Nordic Watercolor Association Prize 2023.
Ég vinn út frá því sem ég nem í umhverfi mínu en ég hef lengi unnið út frá hugleiðingum um lífsævina og baráttuna sem því fylgir að stunda list sína með öllum þeim uppákomum sem því fylgir.
Þegar hugmyndir koma þá eru þær í myndum en skilningurinn á myndmálinu kemur ef til vill
mörgum árum síðar. Veggfóðrið ásótti mig þegar mér var sagt frá formóður minni í hreinan kvenlegg og hvað DNA er sterkt í kvenleggnum þrátt fyrir marga ættliði, en grein um hana birtist í lesbók Morgunblaðsins árið 1998. Þessi uppgötvun útskýrði margt í fari mínu og fann ég fyrir tengingum við formæður mínar. Veggfóður tengist heimili, feminisma, einhverju duldu, földu,
hannyrðum, kerfi, munstri og endurtekningu, keðju. Hönnun og hátækni hefur verið áberandi í
listinni og yfirtekur oftast frumaflið og getur því gert tilveruna flata og þreytandi, því vinn ég með
eitthvað sem hefur verið hannað í fjöldaframleiðslu eins og franska veggfóðrið eða myndröðin IN
MEMORIAM sem ég hef unnið að yfir 20 ár, lag ofan á lag þar sem ég reyni á einhvern hátt að
brjóta upp eða eins og máttvana einstaklingur sem reynir að lifa lífi sínu eftir eigin draumum.
Málverkin á þessari sýningu eru máluð með náttúrulegum efnum, vatnslit, te og eggtemperu á
pappír og eru tilraunir og rannsóknir eins og öll mín verk og unnin síðastliðinn 3 ár. Yfirleitt nota
ég efni og áhöld sem tilheyra skreytilist og læt síðan eyðilegginguna og rotnunina vinna á myndfletinum með hjálp frumaflanna. Lífið heldur stöðugt áfram, við fæðumst og hverfum, allt fjarar út,
eyðist og verður að engu, alveg eins og munstrið í verkunum og verkin sjálf sem hverfa einnig að
lokum.
Verkin eru hugleiðing um forgengileikann, græðgina, hrokann þar sem lífsstarf einstaklingsins er
lítilsvirt. Með því að eldast og hrörna þá áttar maður sig á því að allt puðið var til einskis, lífsstarfið verður að engu í samfélagi þar sem peningar skipta öllu og amatörismi, græðgi og stuldur
stjórna.