Hver er Margrét Jónsdóttir?
Var valin á sýninguna Ólga sem var á Kjarvalsstöðum. Ólga var samsýning níu kvenna sem sýndu afgerandi hlutverk kvenna í mótun íslenskrar listasenu á miklum umbreytingatímum níunda áratugs liðinnar aldar.
Fædd í Reykjavík 1953 og starfar að list sinni í Frakklandi og Íslandi. Hefur unnið sem myndlistarmaður í 51 ár en 50 ár eru frá fyrstu sýningu hennar í London. Menntuð við Myndlista- og handíðaskóla Íslands með 2 diplomur, grafík/listmálun og grafísk hönnun. mastersnám í grafík við Central St. Martins Collage of Art, London og diploma við Kennaraháskóla Íslands.
Hefur hefur haldið yfir 50 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis.
Einn af stofnendum og eina konan við Gallery Suðurgötu 7 sem var mikilvæg miðstöð í þróun framlínumyndlistar á Íslandi.
Er í ritinu „Íslensk listasaga" sem er fimm binda verk og spannar tímabilið frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar.
Einn af stofnendum og kosin í stjórn Hagsmunafélags Myndlistarmanna þar sem eina markmið félagsins var að sameina öll myndlistarfélögin til að berjast fyrir sameiginlegum hagsmunum sem varð SÍM.
Hefur yfir 30 ára reynslu í myndlistarkennslu.
Verk í eigu helstu listasafna landsins.
Hefur hlotið ferðastyrki og starfslaun listamanna.
Winsor&Newtonverðlaun Norrænu akvarellsamtakanna 2023 fyrir áhugavert feminiskt myndmál og listræna leit innan vatnslitamálverksins.
Hefur undanfarin 26 ár gert tilraunir með eggtemperu og vatnslit ásamt öðrum efnum, vinnur með flæðandi vatn, rotnun og myglu í samvinnu við náttúruna. Vatnið er lifandi og hefur minni en það er eitthvað næmi sem dregur hana að því, gerir stöðugar tilraunir með tækni sem er óútreiknanleg eins og náttúran eða lífið og ekkert er eins og það virðist vera. Verkin eru yfirleitt myndraðir og sumar geta tekið mörg ár.
Verk Margrétar hafa alltaf verið mjög persónuleg og frá upphafi hafa þau tengst því að vera kona í menningarheimi karla og femínisma sem var ekki til á þeim árum. Þrátt fyrir að vinna með næmi og fara inná óþekkt svið náttúrunnar, þá eru alltaf duldar meiningar og pólitískar í verkunum.
Á þessu ári var mér boðið að taka þátt í sýningunni Ólga: Frumkvæði kvenna í íslenskri myndlist á 9. áratugnum er samsýning sem fjallar um afgerandi hlutverk kvenna í mótun íslenskrar listasenu á miklum umbreytingatímum níunda áratugs liðinnar aldar.
Það er mikill heiður fyrir mig að vera valin. Ég var sú eina sem útrskrifaðist úr Frjálsri myndlist í mínum fámenna árgangi árið 1974 og það kona! Yngstu konurnar á sýningunni eru sjötugar svo seint kemur viðurkenningin. Mér einnig boðið að taka þátt í vatnslitasýningunni AkvarellNU í Voipaala listamiðstöðinni í Valkeakoski, Finnlandi á þessu ári. Ég er stolt að sýna þar með 8 norrænum vatnslitamálum, allt konur sem þora að taka áhættu.
Á sýningunni er leitast við að skoða flókið tengslanet, sterkan vef og djarft frumkvæði kvenna sem einkenndi þennan tíma listrænnar nýsköpunar.
Einkasýning í Fímsalnum 1987
"Þá kom það mér á óvart hvað lítið hafði verið skráð um þennan tíma. Lítið hafði ratað á söfn eða arkív og mikið af verkunum var enn heima hjá listakonunum eða á vinnustofum þeirra og það var mjög persónulegt að fara heim til þeirra eða á vinnustofurnar. Sumar þeirra voru ad rifja þessa tíma upp í fyrsta skipti" segir Becky Forsythe sýningarstjóri sýningarinnar.
Á áttunda áratugnum lagði önnur bylgja femínisma grunninn að kvenfrelsisbaráttu um allan hinn vestræna heim sem leiddi af sér aukinn sýnileika kvenna og ýmsar breytingar innan stofnana. Með því að byggja á ávinningi áttunda áratugarins, sem oft hefur verið kallaður „kvennaáratugurinn,“ færði níundi áratugurinn konum frekari réttindi og skoraði ríkjandi viðmið listheimsins á hólm. Þessi kvennabarátta lagði því grunninn að nýjum áskorunum næstu kynslóða myndlistarkvenna sem ýttu enn við mörkum samtímalista.
Á meðan Ísland gekk í gegnum verulegar félagslegar og menningarlegar breytingar, stigu konur fram sem róttækar raddir, sigldu inn í og mótuðu listheim sem var að mestu leyti karllægur. Með samstöðu og sameiginlega sýn á lofti ruddu þær nýjar brautir í tjáningu, frá gjörningum til hugmyndalista, og endurskilgreindu listhugtakið. Ólga varpar ljósi á samvinnu og tengslanet þessara listakvenna, gagnkvæman stuðning og ástríðu, en þær sprengdu upp fyrirframgefnar væntingar um leið og þær lögðu grunn að nýrri framtíðarsýn.
Sýningin er afrakstur árslangrar rannsóknarvinnu þar sem áhersla hefur verið lögð á samtöl við listamenn og leit að óþekktum verkum. Verkin endurspegla fjölbreyttan sköpunarhátt listakvennanna og hefur að geyma gjörninga, vídeó, ljósmyndir, skúlptúr, prentverk. Listinn er ekki tæmandi, en hvert einasta valið verk birtist ekki aðeins sem einstök höfundasýn heldur fellur verkið einnig inn í stærra sögulegt samhengi listrænna samskipta og áhrifa. Mörg verkanna, auk efnis úr skjalasöfnum, eru nú sýnd í fyrsta sinn síðan á níunda áratugnum. Þau veita ferska innsýn inn í þetta áhrifaríka tímabil í íslenskri listasögu.
Það sem fylgdi líka þessari innrás kvenna var að ekki var tekið tillit né virðing fyrir að margar konur voru komnar með feril eftir mikið erfiði og sumar eignuðust þúsund nöfnur sem hikuðu ekki við að rugla fólk, fjölmiðla og sýningarsali í ríminu.
Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru Ásta Ólafsdóttir, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Erla Þórarinsdóttir, Gerla, Harpa Björnsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Rúna Þorkelsdóttir, Rúrí og Svala Sigurleifsdóttir.
Ólga er meira en sýning—hún er virðingarvottur til þeirra kvenna sem settu mark sitt á liststofnanir þessa tíma—stofnuðu netverk listrænna tengsla og frumkvæðis sem heldur áfram að móta samtímalist. Samstarfið sem einkenndi listvettvang kvenna á níunda áratugnum leiddi ekki aðeins til nýsköpunar heldur hafði einnig áhrif á þróun sýningarhalds - og safnastarf og stuðlaði að dýpri skilningi á samtímalist á Íslandi.
Samhliða sýningunni fylgir bók sem fjallar ítarlega um sögurnar á bak við listina og listumhverfi þessa tíma. Hún inniheldur rannsóknargreinar Becky Forsythe, sýningarstjóra og Heiðu Bjarkar Árnadóttur, listfræðings, viðtöl við listakonur, myndir af listaverkum og heimildir sem bregða ljósi á tengslanetin og samböndin sem nærðu tímabilið. Með útgáfunni er ætlunin að varðveita og heiðra framlag þessara brautryðjenda og sýna fram á hvernig verk þeirra halda áfram að hljóma og veita innblástur.Árið 2021 fékk Listasafn Reykjavíkur Öndvegisstyrk Safnaráðs til að stofna þrjár rannsóknarstöður í samstarfi við Listfræði við Háskóla Íslands. Þær skyldu helgaðar rannsóknum á framlagi kvenna til íslenskrar listasögu. Fyrsta sýningin var í höndum Sigrúnar Ingu Hrólfsdóttur sem rannsakaði feril Hildar Hákonardóttur (2023). Sú síðari heiðraði verk Borghildar Óskarsdóttur undir stjórn Aðalheiðar Lilju Guðmundsdóttur (2024). Ólga: Frumkvæði kvenna í íslenskri myndlist á 9. áratugnum er þriðja og síðasta sýningin í þessari röð. Hún byggir á rannsóknum Becky Forsythe, sýningarstjóra.
Einkasýning í Fímsalnum 1987