Sunday, April 28, 2019

2010-2011 IN MEMORIAM MOKKA

"good business is the best art"
IN MEMORIAM Mokka- 3.des 2010 til 13. jan 2011
http://mokka.is/Mokka/Syningar___Exhibitions/Entries/2010/12/3_IN_MEMORIAM.html
Margrét Jónsdóttir listmálari sýnir brot úr myndröðinni IN MEMORIAM sem hefur verið nokkur ár í vinnslu með mismunandi tilbrigðum. Verkin eru unnin með eggtemperu á pappír og eru unnin í París. Hugsunin að baki þeirra er listamaðurinn og svo framleiðslan og listiðnaðurinn því oft er engin sýnileg mörk þar á milli. Margir átta sig ekki á að það eru tveir ólíkir vegir, vegur listamannsins og síðan vegur listiðnaðarmannsins. Margrét notar efni og áhöld sem tilheyra skreytilist og reynir að hafa skrautið sem mest, litina oft skæra, truflandi eða daufa og hlutlausa en lætur síðan rotnunina vinna á myndfletinum svo skrautið dofni og fjari út. Myndirnar gera verið rifnar, myglaðar, götóttar og þær eyðast að sjálfsögðu með tímanum eins og allt annað í veröldinni.
Núna er verið að markaðsvæða listina og finna henni tilgang og er það gert með því að meta verðmætin í einhverju sem allir geta skilið eða peningum “Skapandi geirinn veltir 191 milljarði á ári sem er mun meira en landbúnaðurinn og fiskveiðarnar samanlagt” en andleg gildi virðast vera heldur léttvæg í dag. Hinsvegar ef listamaðurinn er ofurseldur markaðinum verður hann að iðnaðarmanni og framleiðir fyrir markað í stað þess að horfa á veröldina gagnrýnum augum. Það nöturlega við þetta allt er að verkin verða verðlaus með tímanum því allt sem er skapað er hluti af hisminu sem við hlöðum í kringum okkur.
Margrét hefur starfað að myndlist í um 40 ár. Haldið fjölda einkasýninga, stundað kennslu, grafíska hönnun, rekið gallerí var m.a. ein af stofnendum Gallerís Suðurgötu 7 sem var mikilvæg miðstöð í þróun framlínumyndlistar á Íslandi, auglýsingastofu og gert upp nokkur hundruð ára hús í Frakklandi. Hún hefur unnið í flesta miðla myndlistarinnar enda með langa og víða menntun á mörgum sviðum ásamt margra áratuga reynslu. Margrét er menntuð við Myndlista- og Handíðaskóla Íslands, Saint Martins/Central Saint Martins Collage of Art í London og Kennaraháskólann. Hún hefur haldið hátt á fimmta tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis