Monday, September 11, 2017

Móðurskauðið djúpa - lífsvatnið NorrænaHúsið 1993

Móðurskauðið djúpa - lífsvatnið
 Ljósmynd tekin af Svölu Sigurleifs myndlistarmanni á einkasýningu minni í Norræna Húsinu 1993
"Sterkasta myndröð Margrétar að þessu sinni er án efa "Lífsvatnið", þar sem listakonan hefur tekið upp nokkuð aðra litameðferð og vinnslu í fletinum. Lífið sprettur fram úr grænum gróðrinum, ýmist í mörgum, litlum lænum (sbr. nr. 1), eða fossar fram af þeim krafti, sem einkennir fullburða fæðingu (sbr. nr. 19). Hér er um að ræða mögnuð myndsvið, sem lýsingin á einnig hlut í að efla."
"Í sýningarsölum Norræna hússins í Vatnsmýrinni fer senn að ljúka sýningu Margrétar Jónsdóttur myndlistarkonu,en þessi sýning virðist á ýmsan hátt merkilegur punktur á ferli listakonunnar."
 "Uppspretta lífs sprettur úr tóminu, iðandi. 
Frumþörf alls lífs, vatn, orka, streymir í gegn. Frjósemi. 
Fullur pottur af tilfinningum, eins og hvirfilbylur,
 er enginn mannlegur máttur ræður við."
 Margrét Jónsdóttir Myndlist Eiríkur Þorláksson Í sýningarsölum Norræna hússins í Vatnsmýrinni fer senn að ljúka sýningu Margrétar Jónsdóttur myndlistarkonu, en þessi sýning virðist á ýmsan hátt merkilegur punktur á ferli listakonunnar.
Margrét hefur verið afar dugleg við sýningarhald undanfarið. Þetta mun vera fjórða einkasýning hennar á nokkrum árum, og önnur slík á þessu ári; þegar haft er í huga að Margrét vinnur fyrst og fremst í afar stórum myndflötum, er ljóst að hún hefur haldið sig vel að verki.
Í látlausri sýningarskrá setur listakonan fram nokkrar hugleiðingar um verk sín, og hvaðan þau koma: "Uppspretta lífs sprettur úr tóminu, iðandi. Frumþörf alls lífs, vatn, orka, streymir í gegn. Frjósemi. Fullur pottur af tilfinningum, eins og hvirfilbylur, er enginn mannlegur máttur ræður við." Við skoðun sýningarinnar kemur fljótlega í ljós að þessar vangaveltur og efni verkanna mynda í raun eina heild, þar sem orðin enduróma í myndfletinum.
Uppsetning sýningarinnar er um margt sérstök. Margrét sýnir hér ellefu stór olíumálverk (flest meira en 2x3 metrar) og fimmtán minni verk, sem eru unnin með aquarelle á handgerðan pappír; stóru verkin eru fest beint á veggina, en ekki á blindramma, svo að tilfinningin fyrir sköpun myndanna verður afar sterk hjá áhorfandanum. Lýsingin er höfð takmörkuð, sem eykur enn á dulúð hinna dimmu myndflata.
Smærri verkin á sýningunni bera öll heitið "Landvættir", og eru fjölþættari flokkur mynda sem listakonan sýndi að nokkru á sýningu í FÍM-salnum fyrr á þessu ári. Í þessum verkum rís landið upp og myndgerist í annarlegum formum, þar sem augu leita tengingar við umhverfið; þessi form má finna í náttúrunni allt í kringum okkur, og í myndunum má oft sjá tilvísanir í ójafnvægi, sem einkennir samskipti manns og lands.
Olíumálverkin skiptast í nokkrar myndraðir, sem þó er dreift um salina, þannig að heildin kemur aðeins í ljós þegar allt hefur verið skoðað. Listunnendur hafa áður séð verk sem Margrét nefnir "Heilagur andi", og hér bætir hún við þá myndröð; fleiri myndir tengjast trúarlegu ákalli, ef svo má segja, og má þar nefna "Brauðið dýra" (nr. 6), þar sem fulltrúar góðs og ills takast á í fletinum, og "Í djúpinu" (nr. 17 og 18), þar sem varfærnisleg friðardúfan veit tæpast af þeim skuggum, sem fylgja henni úr dökkum undirdjúpunum.
Sterkasta myndröð Margrétar að þessu sinni er án efa "Lífsvatnið", þar sem listakonan hefur tekið upp nokkuð aðra litameðferð og vinnslu í fletinum. Lífið sprettur fram úr grænum gróðrinum, ýmist í mörgum, litlum lænum (sbr. nr. 1), eða fossar fram af þeim krafti, sem einkennir fullburða fæðingu (sbr. nr. 19). Hér er um að ræða mögnuð myndsvið, sem lýsingin á einnig hlut í að efla.
Hinn dökki, einliti bakgrunnur sem hefur einkennt stór verk listakonunnar um langt skeið hefur hér vikið fyrir markvissri vinnslu litarins, sem skilar góðum verkum, sem tengjast afar persónulegri myndsýn, því eins og listakonan orðar það sjálf í sýningarskrá; "Eftir allan þennan tíma, er enn verið að berjast við tilfinningar. Tilfinningar, tilfinningar, tilfinningar, tilfinningar. Og þær krauma enn og bulla."
Sýningu Margrétar Jónsdóttur í sýningarsölum Norræna hússins lýkur sunnudaginn 19. september, og eru listunnendur hvattir til að líta við.