Sunday, December 9, 2012

Hroll kaldur veruleiki Myndlistarkonurnar Margrét Jónsdóttir og Svala Sigurleifsdóttir

Hroll kaldur veruleiki
Guðrún Erla Geirsdóttir
Háskóli Íslands - Listfræði - Haustönn 2012.
Málstofa um rannsóknir í íslenskri myndlist 8. og 9. áratugar 20. aldar
Hér á landi tóku þrír myndlistahópa hver við af öðrum sem m.a. áttu það sameiginlegt að reka sýningarými fyrir list sem iðulega féll ekki að fagurfræðilegum viðmiðum, Súm, Gallerí Suðurgata 7 og Nýlistasafnið. Súm-hópurinn, sem stofnað var í lok sjöunda ártugarins, þurfti að berjast við afturhaldsöm viðhorf. Átökin voru birtingamynd samfélags í örum breytingaferli. Beggja vegna Atlandsála var unnið að því rífa niður múra fordóma og forréttinda. Eitt af stóru baráttumálunum var jafnrétti. Í Súm-hópnum störfuðu sjö konur. Í Suðurgötunni tvær, Svala Sigurleifsdóttir og Margrét Jónsdóttir. Aðeins þrjár konur voru meðal 27 stofnfélaga Nýlistasafnsins. Er Suðurgatan kom til sögunnar, 1977, voru 2/3 hlutar nemenda Myndlista- og handíðaskólans stúlkur. [1] Með hliðsjón af jafnréttisbaráttu kvenna er áhugavert að skoða hvernig Margréti og Svölu hefur reitt af í myndlistinni. Leitað verður fanga í umfjöllunum um sýningar þeirra, opinberum gögnum og viðtölum við listakonurnar. Til að skýra myndina verður hugað að kenningum femínískra listfræðinga sem settar voru fram á svipuðum tíma og þær hófu feril sinn.

 Femínísk viðhorf í myndlist
Á síðustu öld komu fram tvær stórar kvennahreyfingar. Sú fyrri barðist fyrir almennum mannréttindum kvenna, s.s.jafnrétti til náms. Sú síðar stefndi á að frelsa konur út af heimilum og að þær væru metnar á eigin forsemdum.
Linda Nochlin birti 1971 grein Why Have There Been No Great Women Artist? Hún telur ástæður skorts á kvensnillingum félagslegar. Horfa þurfi til þróunar skynsemi og ímyndunarafls hjá ungum börnum. Allt sem hendi einstakling frá því hann fæðist inn í þennan heim merkingabærra tákna og boða hafi áhrif á virkni hugverunnar. Ekki séu gerðar sömu væntingar til kynjanna. Konur úr efri stétt hafi mátt ,,föndra” við listir, en félagslegar skyldur, hemilshald og barnauppeldi höfðu forgang. Forsendur þróunar sjálfstæðs persónulegs stíls hafi því ekki verið fyrir hendi, en það sé grunnur að mikilli list. Fjórum árum síðar gaf Lucy Lippard út ritgerðasafn um list kvenna. Hún segir margar konur áttavilltar, óöruggar en  samt tilbúnar að opna sig tilfinningalega í verkum sínum. Sökum þess konur geti ekki fundið samsömun við sögulega stíla hafi þær meiri áhuga á listinni sjálfri. [2]
Í lok 8. ártugarins kom út bók Germain Greer, The Obstacle Race. Hún telur að það sem hamlað hafi konum sé mikil sjálfsgagnrýni m.a. tilkomna sökum uppeldis sem miðaði að því að gera þær gjaldgengar á hjónabandsmarkaði. Einstaklingur (konur almennt) sem alin eru upp til að falla að kröfum um kynveru sem hafi það hlutverk að þjóna sé með skaddaða sjálfsmynd.[3] Ekki er að efa að Svala þekkti skrif þessara kvenna.


Bakgrunnur, nám og fyrstu ári
n í myndlistinni
Svala, fædd 1950, og Margrét, fædd 1953, segjast báðar koma frá heimilum þar sem áhersla var lögð á menningu. Svala, sem er frá Ísafirði, fékk sína fyrstu myndavél 9 ára gömul frá móður sinni, áhugaljósmyndara sem ekki hafði getað numið greinina sökum fjárskorts. Margrét er úr höfuðborginni. Faðir og föðurbróðir, voru skúlptúristar, og móðir hennar höfðu mikinn áhuga á myndlist. Báðar ákváðu ungar að helga sig listagyðjunni. Margrét segir að metnaður hafi verið meiri fyrir hönd bræðra sinna en sína og fjölskyldan tjáði henni að ef hún veldi listina gæti hún ekki átt fjölskyldulíf. Svala gerði sér ung grein fyrir að hún þyrfti að vinna fyrir sér á öðrum vettvangi og tók því kennarapróf.[4]  Þegar Suðurgatan kom til sögunnar höfðu báðar stundað myndlistarnám við MHÍ og erlendis, Svala í Denver og Margrét Lundúnum. Svala hélt fyrstu gallerí einka-sýninguna 1978 og aðra 1981 í Suðurgötunni. Í millitíðinni nam hún listfræði í Höfn og málun í Osló. Eftir stutt stopp hér heima hélt hún til New York í MFA-nám í ljósmyndun við Pratt Institude. Fyrsta gallerí einkasýning Margrétar var mun síðar, eða 1986 og önnur 1987. Margrét sýndi á öllum 13 samsýningum Suðurgötu-hópsins, en Svala á mun færri. Stöllurnar tóku báðar þátt í kvennasýningu í Ásmundarsal 1979 sem Svala skipulagði, en hún var virk í Rauðsokkuhreyfingunni og síðar Kvennalistanum. Svala birti um tvo tugi pistla, í Vísi 1978, um myndlistakonur frá fornöld fram á tuttugustu öld auk greina og viðtala um list kvenna í dagblöðum, 19. Júní og VERU. Margrét, sem ekki tengdist kvennahreyfingum, var í ekki sátt við stöðuna og taldi að jafnvel nýlistamenn sem þættust víðsýnir gætu ekki tekið konu sem jafningja og segir ,,Mér fannst reynsluheimur kvenna ekki vera kominn inn í myndlistarheiminn”. [5] Á Suðurgötu árunum vann Margrét við hönnun og fór í námi grafískri hönnun við MHÍ, sem hún lauk 1984. Það sama ár kemur Svala heim frá New York og heldur einkasýningu í Gallerí Borg. Að framtöldu er ljóst að eftir miðjan níunda ártugnum voru stöllurnar búnar að mennta- og kynna sig íslenska listheiminum, enda komnar á fertugsaldur.   Á svipuðum tíma komu fram í New York kvenna hópur Guerrila Girls - samviska listheimsins, þær sögðu forréttindin við að vera kona í listheiminum væru m.a. að geta ekki lifað af listinni, komast í endurskoðaða útgáfu af listasögunni  og öðlast virðingu og frægð um áttrætt.

 
Myndlistarferillinn
Eins og venja var með einkasýningar birtist gagnrýni í blöðum á sýningar Svölu og Margrétar. Um Svölu segir 1978 að hún leiti víða efniviðar, sé óhrædd og verkin ,,með því betra sem sýnt hefur verið í því ágæta galleríi Suðurgötu 7 og ... að staðnum sé fengur í sýningu Svölu”.[6]  Tveim  árum síðar segir að sem sannur málari hasli hún sér völl á ákveðnu hlutlægu sviði og láti ekki stefnur og strauma núlista hafa rík áhrif á sig. [7]  Á næstu sýningu er hún sögð vera að sækja í sig veðrið, og að óvenjulegar myndirnar hafi áræðin og ertandi undirtón.[8]  Svala hlaut þann heiður að ver annar tveggja Íslendinga sem valin var á Norræna ljósmyndasýningu sem sýnda var í Norrænum söfnum. Á sýningu 1992 eru handmálaðar ljósmyndir hennar sagðar meira sannfærandi en málverkin sem hún hafi sýnt og klykkt er út með að segja að ,,þetta sé með líflegustu sýningum sem settar hafa verið upp í listhorni Sævars Karls og drjúgur sómi af.”[9] Ári síðar er sagt að hún hafi skapað sér nafn og sérstöðu fyrir markviss vinnubrögð með vandmeðfarin miðil, ljósmyndina[10]. Sýning Svölu 1994 í Nýlistasafninu fékk litla umfjöllun. Það sama átti við um næstu og jafnframt síðustu einkasýning hennar, 1996, í verslanarými í nýlegu húsi að Suðurgötu 7. Þar sýndi hún handmálaðar ljósmyndir af uppstilltum hvunndags smáheimi.  

Margrét mátti vel una gagnrýni á fyrstu sýningarnar. Sagt var að málverk hennar væru ,,sérstæð og kærkomin viðbót í íslenska myndlistarflóru.”[11] Hún sýndi í FÍM-salnum 1989 og 1992, á Kjarvalsstöðum 1990 og í Norrænahúsinu 1993 og 1996. Undir yfirskriftinni Framsækni og metnaður er 1990 sagt það vera deginum ljósara að á ferðinni sé listakona í rífandi framsók.[12]  Um aðra sýningu segir að persónuleg myndsýn og markviss vinnsla skili góðum verkum.[13] Það sem íslenski listamarkaðurinn er smár hefur listakonan væntanlega reyst sér hurðarás um öxl með fjölda sýninga og stórum verkum (mörg 2x3 metrar) því á einblöðungi með lítilli sýningu, Konur í menningarheimi karla, í Gryfju Listasafns ASÍ 1998, segir hún sýninguna 1996 hafa skilið eftir sig mikið tap sem hún verði lengur að vinna upp en starfsbræðurnir. Konur séu með lægri laun og að löng menntun og áratuga starf sé hvorki leikur né dútl. Ári síðar segir um sýningu hennar í Hafnarborg að hún sé kraftmikil. [14] Í gagnrýni á sýning í ASÍ 2001, sem bar titilin IN MEMORIAM, segir ,, ... hefur hún verið löggiltur einfari í myndlist sinni, næstum óþægileg einlægnin sem á stundum af þeim stafa. Listkonan getur verið svo berskjölduð í óhamingju sinni, svo opinská um hvatir sínar.” og að ,,Linnulaus og sár spurn Margrétar er ekki uppörvandi en hún skiptir máli, öfugt við margt í myndlistinni í dag.”[15] Annar gagnrýnandi segir sýninguna hennar merkilegustu um langt skeið. Hún fari inn á nýjar brautir og byggi nú alfarið á miðlinum.[16] Titilin IN MEMORIAM bera flestar sýningar hennar síðan, m.a. stór einkasýning 2004. Þar sýndi hún eggtempera myndir sem sagðar eru minna á veggfóður stundum lífrænt, rotnun, tæringu. Gagnrýnandinn (sá ein sem skrifaði um sýninguna) segir í lokin ,,Eflaust ein besta einkasýning sem Listasafn Reykjanesbæjar hefur boðið upp á síðan á vígslusýningunni 2002.”[17] Nokkrar  sýningar hefur Margrét haldið síðan, t.d. í Listasal Mosfellsbæjar 2009.  Þó hér hafi aðeins verið vitnað í jákvæðar umfjallanir um listakonurnar fór ekki hjá því að einnig kvæði við neikvæðari tón, en ekki er hægt að segja annað en í heildina hafi gangrýnin verið fremur jákvæð og sjaldan eða aldrei niður rífandi. 
Velgengni listamanna er oft metin út frá kaupum stóru safnanna á verkum þeirra.  Eftir Margréti á Listasafn Íslands 1 verk, frá 1989, og Listasafn Reykjavíkur 4 verk, frá 1989, 1993, 1994 og 1999. Eftir Svölu á Listasafni Íslands samtals 4 verk, 3 frá 1991 og 1 frá 1996 og Listasafn Reykjavíkur á 4 verk, frá 1978, 1985, 1990 og 1991.  
Verkin eru nær öll frá því fyrir aldamót, enda aðeins önnur þeirra sýnt á nýrri öld. Því hefur verð haldi fram að árangur sem náðist í jafnréttisbaráttunni hafi ekki verið varanlegur og fræðikonur í Bandaríkjunum hafa sýnt fram á að bakslag hefur orðið í 
einkasýningum kvenna á síðustu árum.[18] Fróðlegt er að skoða nýlega bók Íslensk listasaga. Þar er ekki minnst á Svölu, en Margrét fær 5 tæpar fimm línur og mynd. [19] Starfsbræður úr Suðurgötunni virðast fá þar miklu meira rými. Vert er að geta þess að Margrét fékk árs starfslaun 1994 og 2002, og hefur oft fengið ferðastyrki. Svala fékk a.m.k. úthlutað starfslaunum, 6 mánuðum 1996[20]. Þó Svala ríði þarna ekki feitum gelti þá sýnir nýleg fundargerð stjórnar Nýlistasafnsins  þar sem segir um Svölu ,,Hún er að okkar mati einn stórkostlegast listamaður sem Ísland hefur alið af sér.”[21]  að a.m.k. sumir kolleganna kunna að meta verk hennar.


Lesið úr 
upplýsingum                                                            
Til að geta sagt til um stöðu Margrétar og Svölu innan íslenska listheimsins þyrfti að gera rannsókn þar sem ferill þeirra væru borinn sama við starfsbræðra þeirra  frá Suðurgötu árunum. Slíkt er ekki í boði hér.
Þó Margrét og Svala séu um margt ólíkar eiga þær ýmislegt sameiginlegt. Báðar  hafa verið iðnar við að sýna en hvorug getur lifað af listinni. Svala, sem hefur búið í Kaupmannahöfn frá 2009, vinnur fyrir sér við umönnun aldraðra, en var áður ritari í hlutastarfi. Margrét hefur lengst af starfað sem myndmenntakennari. Hvoru er gift eða á börn. Báðar segja listina skipa stærstan sess í lífinu og þær ferðast mikið til að fylgjast með og a.m.k. Svala á gífurlegt safn bóka um myndlist og er mjög vel lesin.
Nochlin benti á að oft væri fjallað um vandmál kvenna. Réttara væri að snúa þessu við og horfa á vandmálið sem samfélagsins, því konur sitji ekki við sama borð og karla. Ekki séu gerðar sömu væntingar og kröfur til þeirra frá frumbernsku. Það er í samræmi við að Margrét segir að metnaður hafi verið meiri fyrir hönd bræðra sinna en sína og segja má að með ummælunum að list hennar sé ,,hvorki leikur né dútl” skilgrein hún sig frá efristéttar konunum Nochlin, sem föndruðu við listir, en félagslegar skyldur, heimilishald og barnuppeldi höfðu forgang. Með tilliti til þess sem Margrét segir; að henni hafi verið gerð grein fyrir að helgaði hún sig listinn gæti hún ekki átt heimilislíf, má geta sér þess til að barnleysið sé ákvörðun. Báðar listakonurnar hafna kynveru hlutverki Greer með því að vera einhleypar. Nochlin telur höfnun þess að setja félagslegar skyldur í forgang sé forsenda þróunar sjálfstæðs persónulegs stíls. Lesa má úr gagnrýni að þær er báðar taldar hafa sérstaka og persónulega stíla, og líklegt er að gagnrýnandinn sem segir að Margréti sé ,,löggiltur einfari í myndlist sinni” eigi einmitt við það. Orð þess sama ,,listakonan getur verið svo berskjölduð í óhamingju sinni, svo opinská um hvatir sínar.” falla fullkomlega að skrifum Lippard um að konur séu tilbúnar að opna sig tilfinningalega í verkum sínum. Hún segir einnig að konur hafi meiri áhug á listinni sjálfri en stílum, en  gangrýnendum hefur reynst erfitt að skilgreina verk listakvennanna innan stefna eða stíla og því hægt að álít að þær leggi meiri áherslu á listina sjálfa en að falla innan megin strauma listarinnar.
Þeir sem þekkja verk Margrétar og Svölu bera margir mikla virðingu fyrir þeim s.b. fundargerð stjórnar Nýlistasafnsins um að Svala sé að þeirra mati einn stórkostlegast listamaður sem Ísland hefur alið af sér. Um Margréti má vísa í gagnrýnandann sem sagði að linnulaus og sár spurn hennar væri ekki uppörvandi en hún skiptir máli, öfugt við margt í myndlistinni í dag. Hvorug hefur geta lifað af listinn og fróðlegt verður að vita hvort þær munu einnig falla innan annarra skilgreininga Guerilla Girls, og fá almennilega umfjöllun í endurskoðaða útgáfu listsögunnar og öðlast viðurkenningu og frægð eftir áttrætt.

Heimildir:
A picture is a picture is … , sýningarskrá, The Nordic Art Center, Helsingi, 1989.
Aðalsteinn Ingólfsson, Af náttröllum, Dagblaðið, 20. 10. 1987.
Áslaug Thorlacius, Frumstæð tákn og fjarskafegurð, DV, 05. 1999. 
Bragi Ásgeirsson, Framsækni og metnaður, Morgunblaðið, 18. 01. 1990.
Bragi Ásgeirsson, Kyrralífsmyndir, Morgunblaðið,19. 04. 1991.
Bragi Ásgeirsson, Tilvísanir, Morgunblaðið, 1. 03. 1990.
Einar Guðmundsson, Innan hornklofa – bækurnar þrjár, viðauki I. fundargerðir SÚM, Siverpress, Munchen, 2004.
Eiríkur Þorláksson, Margrét Jónsdóttir, Morgunblaðið, 17. 10. 1993.
Eiríkur Þorláksson, Svala Sigurleifsdóttir, Morgunblaðið, 24. 11. 1993.
Greer, Germaine, The Obstacle Race, Farrar Straus Gioux, New York, 1979.
Halldór Björn Runólfsson, Við endimörk hlutanna, 24. 11. 2001.
Íslensk listasaga V. bindi, ritstjóri Ólafur Kvaran, Listasafn Íslands; Forlagið, Reykjavík, 2011.
Jón B. Ransu, Hluti af umhverfi okkar, Morgunblaðið, 10. 06. 2004.
Lippard, Lucy, From the Center, femisti essay on women’s art, Duton, New York, 1976.
Magnús Gestsson, Gallerí Suðurgata 7,  B.A. ritgerð í sagnfæði, HÍ, Reykjavík, 1997.
Margrét Jónsdóttir, Konur í menningarheimi karla, sýningarskrá, Listasafn ASÍ (Gryfjan), Reykjavík, 1998. 
Margrét Jónsdóttir, viðtal höfundar við Margréti, 29. 11. 2012
Nochlin, Linda, Women, Art and Power and Other Essays, Westview Press, 1988.
nylo.is. Fundargerð stjórnar Nýlistasafnsins 2008 eða 2009, ódagsett, sótt á heimsíðu safnsins    02. 12. 2012.
Svala Sigurleifsdóttur, viðtal við fjórar myndlistarkonu ,,Það er svo miklvægt að  trúa á sjáfan sig.”, 19 júní, Kvenréttindafélga Íslands, Reykjavík, 1978.
Svala Sigurleifsdóttir, viðtal höfundar við Svölu vegna ritgerðar Handmálaðar ljósmyndir úr heimi listafólks, 03. 2007.       
Samantekt úr skrá um listaverkaeign Listasafn Íslands, tekin sama af  Elínu Guðjónsdóttur, 29. 11. 2012.
Samantekt úr skrá um listaverkaeign Listasafn Reykjavíkur, tekin saman af Hörpu Flóvensdóttur, 28. 11. 2012.
Umm.is, Margrét Jónsdóttir, einkasýningar, sótt á netið 26. 11. og 01. 12. 2012.
Valtýr Péturson, Svala Sigurleifsdóttir í Suðurgötu 7, Morgunblaðið, 1. 02. 1978.

Einkasýningar Margrétar Jónsdóttur:
2010, 2011-IN MEMORIAM-Mokka Kaffi, Reykjavik.
2009-IN MEMORIAM-STARTART, Reykjavik.
2009-IN MEMORIAM-Landakotsspítali, Reykjavik.
2009-IN MEMORIAM-Listasalur Mosfellsbæjar.
2009-STUDIO 1523-Cité Internationale des Arts, París.
2008-Listamaður mánaðarins-SÍM-húsið Hafnarstræti 16, Reykjavik.
2006, 2007-vinnustofusýningar-Korpúlfsstaðir, Reykjavik.
2004-IN MEMORIAM-Listasafn Reykjanesbæjar.
2003-Misskilningur er svo áhugaverður!-Gallerí Skuggi, Reykjavik.
2001-In memoriam GRYFJAN-Listasafn ASÍ, Reykjavik.
2001-In memoriam.-Listasafn ASÍ, Reykjavik.
1999, 2000, 2001-Café Ozio, listkynningar, Reykjavík.
1999-MARGRÉT JÓNSDÓTTIR-Listasafn Kópavogs - Gerðarsafn. Kópavogur.
1999-Kaffistofa Hafnarborgar, Hafnarfjörður.
1999-MARGRÉT JÓNSDÓTTIR-Hafnarborg listastofnun, Hafnfjörður.
1999-Listkynning FÍM-Hótel Selfoss, Selfoss.
1998-Listkynning Penninn Eymundsson, Reykjavik.
1998-Konur í menningarheimi karla-Listasafn ASÍ, Reykjavik.
1996-MARGRÉT JÓNSDÓTTIR-Norræna húsið, Reykjavik.
1993-MARGRÉT JÓNSDÓTTIR-Norræna húsið, Reykjavik.
1993-Gestasýning FÍM-salurinn, Reykjavik.
1992-FÍM-salurinn, Reykjavik.
1990-Einkasýning í Vestursal-Kjarvalsstaðir, Reykjavik.
1989-Tveir á ferð FÍM-salurinn, Reykjavík.
1989,1990,1991,1992-Sólbaðsstofa Reykjavíkur, listkynningar.
1988-MARGRÉT JÓNSDÓTTIR-Gallerí Gangskör, Reykjavík.
1985,1986-1987-1988-MARGRÉT JÓNSDÓTTIR Listkynning-Japis.
1987-FÍM-salurinn, Reykjavík.
1986-MARGRÉT JÓNSDÓTTIR-Slunkaríki, Ísafjörður.
1975,1976-Window Gallery at Central Saint Martins, London.

Einkasýningar Svölu Sigurleifsdóttur:
1996 - Sýning í Suðurgötu 7, Reykjavík.
1994 – Nýlistasafnið, Reykjavík.
1993 – Gallerí II, Reykjavík.
1992 – Gallerí Sævar Karl, Reykjavík.
1991 - Gallerí Sævar Karl, Reykjavík.
1990 - Gallerí II. Reykjavík.
1989 – Nýlistasafnið, Reykjavík.
1988 – Bókasafn Kópavogs.
1984 - Pratt Instude Gallery, New York.
1984 – Gallerí Borg, Reykjavík.
1984 – Menntskólinn Ísafirði.
1981 – Jónshús, Kaupmannahöfn.
1981 – Bókasafn Ísafjarðar.
1979 – Gallerí Suðurgata 7, Reykjavík.
1978 – Bókasafn Ísafjarðar.
1976 – Lyle Tru Gallery, Denver.
1976  - Alþýðuhúsið, Ísafirði.
Listi um einkasýningar Svölu er unnin af höfundi frá heimildum á Listasafni Íslands.

[1] Kemur fram í viðtali Svölu Sigurleifsdóttur við fjórar myndlistarkonu ,,Það er svo mikilvægt að  trúa á sjálfan sig.”, 19 júní, Kvenréttindafélag Íslands, Reykjavík, 1978, s. 38
[2] Lucy Lippard, From the Center, femisti essay on women’s art, 1976,Duton, New York, s. 4-7.
[3] German Greer, The Obstacle Race, Farrar Straus Gioux, 1979, New York, s. 7, 12, 13.
4 Viðtöl höfundar við Svölu ?. 03. 2007 og Margréti 29. 11. 2012.
[5] Viðtal við listkonuna 28.11. 1996. Magnús Gestsson, Gallerí Suðurgata 7, BA ritgerð í sagnfræði við HÍ, 1997, s. 80.
[6] Valtýr Pétursson, Svala Sigurleifsdóttir í Suðurgötu 7, Morgunblaðið, 01. 01. 1978.
[7] Bragi Ásgeirsson, Tilvísanir, Morgunblaðið, 1. 03. 1990.
[8] Bragi Ásgeirsson, Kyrralífsmyndir, Morgunblaðið, 19. 04. 1991.
[9]  Bragi Ásgeirsson, Litaðar ljósmyndir, Morgunblaðið 1992. 2. 02. 1992.
[10] Eiríkur Þorláksson, Svala Sigurleifsdóttir, Morgunblaðið, 24. 11. 1993.
[11] Aðalsteinn Ingólfsson, Af náttröllum, Dagblaðið, 20. 10. 1987.
[12] Bragi Ásgeirsson ?, Framsækni og metnaður, Morgunblaðið, 18. 01. 1990.
[13] Eiríkur Þorláksson, Margrét Jónsdóttir, Morgunblaðið, 17. 10. 1993.
14 Áslaug Thorlacius, Frumstæð tákn og fjarskafegurð, DV, 25. 05. 1999. 
15 Aðalsteinn Ingólfsson, Og svo er allt búið, Dagblaðið,  ?. 11. 2001.
16 Halldór Björn Runólfsson, Við endimörk hlutanna, 24. 11. 2001.
17 Jón B. Ransu, Hluti af umhverfi okkar, Morgunblaðið, 10. 06. 2004. s. 26
[18] After the Revolution, Women Who transformed Contemporary Art, ýmsir höfundar, Prestler, New York, 2007. S. 23.
[19] Íslensk listasaga V bindi, ritstj.Ólafur Kvaran, Listasafn Íslands; Forlagið, Reykjavík, 2011, s. 40.
[20] Erfitt reyndist að nálgast gögn um Svölu. Upplýsingar um hana eru ekki hjá UMM.
[21] Fundargerð stjórnar Nýlistasafnsins, 2008 eða 2009, ódagsett.