Tuesday, December 7, 2010

HVERRA MANNA ERTU

Amma Steinunn ásamt systrum sínum Guðbjörgu og Magdalenu og Guðrúni dóttir Magdalenu. Formóðir þeirra í beinan kvenlegg var METTA HANSDÓTTIR Í VÍK og einnig dóttir hennar Gunnhildur yngri "kóngamóðir" sem sögð var hinn mesti svarkur. Metta var síðasti ábúandinn á landnámsjörð Ingólfs Arnarsonar og sagt var um eiginmann hennar að hann hefði verið fyrsti Arnarhólsróninn.
Annars dags kvöld eins á jólum
og aðfaranótt þrettándans
leika menn sem hlaupi á hjólum,
hvergi verður gleðinnar stans.
hætt er við þeir hringi tólum,
hegðun sú má kallast fín.
Hjá honum Jóni Hjaltalín.
Árið 2002 komst ég að því hver formóðir í beinan kvenlegg var, bræður mínir bentu mér á legginn ásamt því að segja mér að DNA væri mun sterkara í kvenleggnum en hjá körlum og því þynntust genin lítið þó um nokkra ættliði væri um að ræða. Þeir bentu mér einnig á að mjög margt væri líkt með mér og formóður minni. Ég hafði verið að kafa í sjálfri mér eina ferðina enn og reyna að útskýra margt í lífi mínu eins og t.d. flökkueðli, ólgu og ævintýragirnd ásamt mörgu öðru sem ég tilgreini ekki hér. Þessi uppgötvun á rótum mínum opnuðu dyr fyrir mér og fór ég að vinna myndröðina IN MEMORIAM, Frönsku veggfóðursvekin út frá þessum tilfinningum þegar ég dvaldi í París við Cité Internationale Des Arts í nær ár 2002-2003 enda á starfslaunum listamann það árið.
Formóðir mín er METTA HANSDÓTTIR Í VÍK, einnig dóttir hennar Gunnhildur yngri "kóngamóðir" sem sögð var hinn mesti svarkur. Metta var síðasti ábúandinn á landnámsjörð Ingólfs Arnarsonar og sagt var um eiginmann hennar að hann hefði verið fyrsti Arnarhólsróninn.
Víkin var fræg fyrir veisluhöld og hér er ljóð eftir séra Gunnar Pálsson sem var um tíma rektor á Hólum:
Annars dags kvöld eins á jólum
og aðfaranótt þrettándans
leika menn sem hlaupi á hjólum,
hvergi verður gleðinnar stans.
hætt er við þeir hringi tólum,
hegðun sú má kallast fín.
Hjá honum Jóni Hjaltalín.
Hérna getum við upplifað umhverfið sem METTA lifði í og eigum því ef til vill betur með að skilja hversu einstök hún var:
http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=38orl6sdzRk

Sagan segir að ELÍTAN hafi bolað Jóni úr starfi og sölsað undir sig eigur þeirra hjóna. METTA hafði farið eigin leiðir og brotið hefðir og venjur enda var hún menntuð og kom úr öðru menningarsamfélagi. Hún söng og kenndi m.a. dans sem var bannað á þessum tíma. Hún hafði verið efnuð en stjúpfaðir hennar sölsað öllu undir sig.
Þau hjón lentu á götunni, allslaus! Það var þá sem Gunnhildur yngri formóðir mín og dóttir þeirra hjóna ákvað að fara á fund konungs og krefjast lífeyris fyrir móður sína og hamp fyrir eiginmann sinn sem var reipslagari á Stapa. Slík ferð tók ár á þeim tíma og óvíst var að konungur veitti henni viðtal. Allt fór á besta veg og varð þeim vel til vina, Gunnhildur fékk allar óskir sínar uppfylltar og viðurnefnið "kóngamóðir" af íslendingum.
Sjá:
AF JÓNI ODDSSYNI HJALTALÍN - Laugardaginn 15. nóvember, 1997 - Lesbókhttp: //www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=366024
Sjá:
METTA HANSDÓTTIR Í VÍK
Halldór Ármann Sigurðsson.
Morgunblaðið 7. febrúar, 1998.
Lesbókhttp: //www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=382745
Sjá:
METTA HANSDÓTTIR Í VÍK. Síðari hluti. ALLAN VETURINN ERU ÞEIR AÐ DANSA
Halldór Ármann Sigurðsson. Morgunblaðið 14. febrúar, 1998.
Lesbókhttp: //www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=382745
Nóttina fyrir nýársdaginn
nokkuð trúi ég haft sé við
fellur mönnum flest í haginn
fullum upp með gamanið.
Þá er á ferðum enginn aginn
allir ráða gjörðum sín
-hjá honum Jóni Hjaltalín -.
Fagur kyrtill, fullur maginn
fallega þeir sér ansa.
Allan veturinn eru þeir að dansa.
Saga Mettu er dularfull og spennandi en hún var útlendingur og kona! Mikið er af villandi upplýsingum um hana sem einkennast af fordómum. Hvaðan kom hún, hverjar voru rætur hennar? Skora ég á alla að lesa greinar Halldórs. Að rannsaka sögu Mettu, hver hún var og hvaðan hún kom, hverra manna hún var er verðugt verkefni fyrir MA gráðu.
Hér er faðir Mettu borgmester á Jótlandi og móðir hennar af þýskum ættum: http://www2.honnun.is/olafur/aettfraedi/olafur_sigurdsson.for/per02962.htm#0 http://skjalaskrar.skjalasafn.is/?cmd=skoda&safn=hiddanskakanselli&flokkur=KA&offset=450


Séra Runólfur Henriksson í Sandfelli skrifar konungi vegna máls hans við Gottrup vegna trúlofunarmála hans við Guðríði Eyjólfsdóttur og Mettu Hansdóttur, sem leiddu til þess, að hann var talinn draga Mettu á tálar. Konungsúrskurður 16. júlí 1712. Með fylgja: Synodalréttardómur 21. júlí 1711 og ódagsettt konungsbréf. Hinn 6. september 1711.
http://skjalaskrar.skjalasafn.is/?cmd=skoda&safn=rentukammer&flokkur=B1&offset=650
Pingel amtmaður skýrir frá því, að hann hafi vikið Jóni Oddssyni Hjaltalín sýslumanni í Kjósarsýslu úr embætti. 17. ágúst 1749. Fylgiskjöl: Afrit bréfa og bréf til konungs. Isl. Journ. A, nr. 1080 og 1085.


Líkast til er hér komin ástæðan að miskunnalausum aðförum og eignaupptöku hjónanna. Metta hefur verið álitin af hinu illa og fékk að kenna á því! Er það ekki ennþá viðhorfið til listamanna? sjá:http://www.natturan.is/baekur/690/

.     En nú tekur heldur betur að syrta í álinn fyrir þessum gleðisamkomum. Skömmu fyrir miðja 18. Öld voru sendirhingað til lands þeir Lúðvík Harboe og Jón Þorkelsson til að líta eftir kristnihaldi og siðgæði í landinu. Þeir fundu margt athugavert, að þeim þótti og öðru vísi en í Danmörku Þeir sendu álitsgerðir til stjórnarinnar í Kaupmannahöfn, og í kjölfar þeirra komu konunglegar tilskipanir, sem m.a. bönnuðu Íslendingum í reynd að skemmta sér við annað en guðsorðalestur og sálmasöng. Eðlilega áttu sýslumenn ásamt prestum að fylgjast með því, að þessu banni væri hlýtt. Einn hinn síðasti þeirra, sem haldið hefur jólagleði, áðurn en hið konunglega bann dundi endanlega yfir, mun vera Jón Hjaltalín sýslumaður í Reykjavík.
Um dansgleði hans orti sr. Gunnar Pálsson. Eitt sunnslenskt vikivakakvæði sennilega kringum 1740, og í því eru þessi erindi:
Nóttina fyrir nýársdaginn
Nokkuð trúi ég haft sé við.
Fellur mönnum flest í haginn
Fullum upp með gamanið.
Þá er á ferðum enginn aginn
Allir ráða gjörðum sínum
Hjá honum Jóni Hjaltalín


– Fagur kyrtill, fullur maginn,
Fallega þeir sér ansa.-
allan veturinn eru þeir að dansa.
Annars dags kvöld eins í jólum
og aðfaranótt þrettándansleika
menn sem hlaupi á hjólum
hvergi verður gleðinnar stans.
Hætt er við þeir hringi tólumhegðun
sú má kallast fín.
Hjá honum Jóni Hjaltalín–
gaman er að soddan sjólum
sér þótt stofni vansa.-
allan veturinn eru þeir að dansa.

Aðrir ættingjar á meðal listamann eru:
Föðurbróðir: http://umm.is/UMMIS/Listamenn/Listamadur/57

Faðir: http://umm.is/UMMIS/Listamenn/Listamadur/445
Bróðurdóttir: http://umm.is/UMMIS/Listamenn/Listamadur/643
Frænka, þremenningar: http://umm.is/UMMIS/Listamenn/Listamadur/381
Frændi, fjórmenningar: http://umm.is/UMMIS/Listamenn/Listamadur/56

Jón Hjaltalín, eiginmaður Mettu Hansdóttur, tók við sýslumannsembætti Kjærs 1730 og fluttist líklega sama ár úr Effersey inn í Vík. Á orði var haft að heimilislífið í Vík væri með gáskafyllsta móti. "Þar er ekkert utan gleði, ævinleg á sunnudags kvöld" segir í vikivakakvæði.

Hér fyrir neðan er eftirfarandi grein Halldórs:
METTA HANSDÓTTIR Í VÍK. Síðari hluti. ALLAN VETURINN ERU ÞEIR AÐ DANSA
Framgjarn Hjaltdælingur
ÞAÐ andar köldu frá flestum sagnariturum til Jóns Oddssonar Hjaltalíns, enda var hann boðflenna í íslenska höfðingjahópnum, óskólagenginn bóndasonur sem hófst af sjálfum sér og átti í þokkabót danska konu. Ekki bætti um fyrir Jóni að þau Metta voru gleðifólk á gleðifirrtum tímum píetismans, þegar þjóðin var svo upptekin við að vera guðhrædd og mædd að hún glutraði niður danskunnáttu sinni.
.     Jón var af alþýðuættum, Þorgerðarson í Hjaltadal Jónsdóttur og Odds bónda hennar Önundarsonar. Hann var 16 ára vinnupiltur hjá Gísla móðurbróður sínum á Reykjum í Hjaltadal árið 1703 og hefur því verið fæddur um 1687. Fjórtán ár líða þar til honum skýtur aftur upp í heimildum, 1717, og hefur vegur hans þá heldur aukist því að þá er hann nefndur á alþingi sem lögréttumaður úr Kjalarnesþingi. Jón varð síðan lögsagnari Níelsar Kjærs í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1728, var settur yfir báðar sýslurnar við andlát Kjærs 1730 og fékk veitingu fyrir þeim 1732. Gullbringusýslu sagði hann af sér 1743 en var að sögn Hannesar Þorsteinssonar settur frá Kjósarsýslu 1750 vegna skulda og drykkjuskapar. Jón var landseti konungs í Effersey (Örfirisey) 1720 og sjálfsagt bæði fyrr og síðar og í Reykjavík bjó hann sennilega frá 1730 allt til þess að hann missti ábúðina árið 1752.
.     Alþingisbækur Íslands bera það með sér að Jón gegndi trúnaðar- og embættisstörfum sínum af samviskusemi, að minnsta kosti framan af ferli sínum, og þær sýna einnig að hann var einhver snjallasti og eftirsóttasti málafærslumaður landsins frá því um 1720 og fram yfir 1730. Hann var vissulega harðskeyttur en hann undirbjó mál sín af kostgæfni og virðist hafa verið manna best að sér í norsku lögum Kristjáns fimmta sem æ oftar var dæmt eftir þegar leið á 18. öld. Oft var hann saksóknari eða verjandi konungsvaldsins og stundum erindismaður amtmanns á alþingi en hann tók líka margsinnis að sér að rétta hlut smælingja gagnvart yfirgangi innlendra höfðingja. Hannes Þorsteinsson gerir mikið úr því að hann hafi verið óheppinn í dómum sínum eftir að hann varð sýslumaður sjálfur og hlotið sektir "fyrir of harða dóma eða lögleysur" sem stafað hafi af miklum drykkjuskap hans. Athugun á alþingisbókunum 1730-1750 leiðir hins vegar í ljós að þarna er aðeins um tvo dóma að ræða og sýnir reyndar að Jón hefur verið friðsamt og aðgerðalítið yfirvald. Það sópaði að Jóni á alþingi á meðan hann sinnti þar málafærslustörfum en eftir að hann varð valdsmaður sjálfur kom hann lítt við sögur.
.     Áðurnefnda eyðu í heimildum um Jón, árin 1703 til 1717, fyllir Bogi Benediktsson svo: "Jón Hjaltalín vandist í æsku með dönskum, og var að náttúru mjög glaðsinna og orðhvatur, ekki lærður á latínu, en skýr og fljót-skarpur og lagði sig eptir íslenzkum lögum." Orðalagið "vandist í æsku með dönskum" bendir til þess að Jón hafi ungur byrjað innanbúðar á Hofsósi en um það verður þó ekkert fullyrt. Engu að síður er unnt að komast nokkru nær um það hvenær og hvernig þau Metta og Jón kynntust. Líkur benda til að það hafi með nokkrum hætti og þó óforvarandis orðið fyrir tilverknað Odds Sigurðssonar.
.     Oddur var glæsimenni og drengskaparmaður í aðra röndina og hefur því unnið sér talsverða samúð sagnaritara, einkum Jóns. J. Aðils sem ritaði ævisögu hans. En hann var þó reyndar þvílíkur ofstopamaður að fullkomið efamál verður að telja að hann hafi alltaf verið heill á geðsmunum. Á alþingi 1721 flutti Jón Hjaltalín mál alþýðumanns úr Snæfellsnessýslu sem Oddur hafði beitt verstu rangsleitni og hafði fullkominn sigur. Árið eftir sótti Jón mál annars almúgamanns af Snæfellsnesi á hendur Oddi en Oddur sá þá sitt óvænna og gekk til sátta áður en málið kæmi til dóms. Að öðru leyti var meinlítið með þeim Oddi og Jóni allt þar til á alþingi 1734. Oddur slettist þá upp á Jón með ólögmætri kröfu en Jón brást ókvæða við og briglsaði Oddi um æruleysi. Málinu lauk svo að Oddur var dæmdur í sektir við Jón en brigslyrði Jóns ómerkt. Jón J. Aðils rekur þessi viðskipti lauslega í ævisögu Odds og er sú frásögn öll mjög hlutdræg og hallar á Jón. Í frásögu Jóns er meðal annars þetta: "Jón þessi Hjaltalín átti Oddi margt gott upp að inna. Hafði Oddur endur fyrir löngu tekið hann að sér í Kaupmannahöfn, bjargað honum úr örbirgð og komið honum til manns."
.     Þess er annars hvergi getið að Jón Hjaltalín hafi nokkurn tíma siglt og Jón Aðils getur ekki um heimild fyrir frásögn sinni, enda er á henni þjóðsagnablær. En það styður hana þó að Oddur sigldi einmitt 1706, sama haust og Páll Beyer, og því má álykta að Jón hafi þá verið í Kaupmannahöfn og kynnst ekki aðeins Oddi heldur einnig Beyer veturinn 1706-1707. Sennilegast er því að söguna um að Oddur hafi tekið Jón að sér í Höfn og komið honum til manns beri að skýra svo að Jón hafi kynnst Beyer og komist í hans þjónustu fyrir tilstilli Odds. Víst er að þeir Beyer og Oddur hafa eitthvað umgengist þennan vetur.
.     Jón hefur að líkindum komið út með Beyer sumarið 1707 og um það bil tveimur árum síðar giftist hann Mettu Maríu. Beyer hafði áður reynt að kaupslaga um Mettu við séra Runólf í Sandfelli og líkast til er það skýringin á þeirri fráleitu þjóðsögu að Jón hafi fengið sýslumannsembætti að launum fyrir að giftast henni. Vitanlega gekk Jón í þjónustu Beyers og einhvern heimanmund fékk hann sennilega með konu sinni en það er úr lausu lofti gripið að hann þægi sérstaka umbun fyrir að ekta hana. Jón komst ekki til neinna metorða fyrr en löngu eftir að þau Metta giftust og þá varð það án hjálpar Beyers. Þau eignuðust níu börn sem komust upp og ekkert bendir til annars en að hjónaband þeirra hafi verið elskuríkt. Bogi Benediktsson segir reyndar að Jón væri "haldinn kvenhollur" og Páll Eggert lepur þetta eftir honum. Ekki er þó vitað til að Jón hafi nokkurn tíma skipt sér af öðrum konum en Mettu og því er þetta tilhæfulaust fleipur. Hin "opinbera söguskoðun" á Jóni Hjaltalín er reyndar að talsverðu leyti náungaslaður fært í viðhafnarflíkur sagnfræðinnar.
Eru þeir að dansa
Varðveist hefur bréf sem Jón Hjaltalín skrifaði til Fuhrmanns amtmanns, dagsett 31. ágúst 1720 í "Effersoe ved Holmen udi Island". Í bréfinu biður Jón amtmann með mörgum fögrum orðum að aðstoða sig við að ná arfi Mettu eftir foreldra hennar, enda sé móðir hennar nú látin fyrir nokkru og Hans Olfsen stjúpi hennar kvæntur öðru sinni. Segir Jón að þau hjón hafi bæði margsinnis reynt að ná sambandi við Olfsen út af málinu en allar tilraunir þeirra í þessa átt hafi reynst árangurslausar. Olfsen hafi þó haft fulla vitneskju um að Metta væri á lífi og um hvar hún væri niðurkomin, enda væri hún "fra sin faders hus, med hans (þ.e. Olfsens) og móderens villie og raad bort komen". Í bréfinu kemur enn fremur fram að foreldrar Mettu höfðu verið "temmelig formuende folk" og að hún átti tvær yngri systur sem ekki höfðu heldur notið arfs síns. Loks lætur Jón þá frómu ósk í ljós að kona hans "som sidder her i et fremmed land med 5 smaa bórn" fái um síðir þann arf sem henni beri, en að þeirri ósk varð honum þó ekki.
.     Beyer hefur að sjálfsögðu útvegað Jóni og Mettu ábúina í Effersey, líkast til með vildarkjörum. Búskapur í eynni var smár í sniðum en heimræði var þar árið um kring og hefur Jón því haft þar einhvern útveg. Sennilegast er að hann hafi auk þess áfram verið að einhverju leyti í þjónustu Beyers og síðan orðið assistent hjá Hólmskaupmanni. Og smám saman jókst vegur Jóns. Á meðal nágranna þeirra Mettu voru sýslumannshjónin í Nesi við Seltjörn, Þórdís Jónsdóttir varalögmanns Eyjólfssonar og Níels Kjær. Traust og síðan vinátta tókst með Jóni og Níels, Níels tilnefndi Jón sem lögréttumann 1717 og tók sér hann sem lögsagnara 1728, eins og áður er nefnt. Ári síðar, 1729, eignuðust þau Jón og Metta son og gáfu honum nafnið Níels.
.     Sem fyrr segir tók Jón við sýslum Kjærs 1730 og fluttist líklega sama ár úr Effersey inn í Vík. Á orði var haft að heimilislífið í Vík væri með gáskafyllsta móti. "Þar er ekkert utan gleði, ævinleg á sunnudags kvöld" segir í vikivakakvæði sem séra Gunnar Pálsson, þá djákni á Möðruvöllum, lagði út af frásögn sunnlensks kaupamanns um gleðskapinn í Vík. Mikið hefur kaupamanninum fundist til um velmegunina þar syðra því að "kvenfólkið í silfri skín, hjá honum Jóni Hjaltalín". Og enn segir þar: "Fagur kyrtill, fullur maginn, fallega þeir sér ansa, allan veturinn eru þeir að dansa."
.     Jón var gleðimaður mikill og veitingasamur og Metta að líkindum glaðsinna, söngvin og dansfús. Hún þekkti að sjálfsögðu til skemmtanahalds eins og það tíðkaðist í Danmörku, hafði bæði kynnst því þarlendis og á kóngsgarðinum á Bessastöðum, og hefur kennt börnum sínum og grönnum dansa og aðra gleðileiki. Fólkið á Arnarhóli, í Hlíðarhúsum og Skildinganesi var allt aufúsugestir og sömuleiðis kaupmennirnir í Hólminum og Hafnarfirði, Bessastaðamenn og enn aðrir. Og það var glaumur og gleði í Vík: "Hjá honum Jóni Hjaltalín, hoppa menn sér til vansa, allan veturinn eru þeir að dansa."
.     Á alþingi 1743 var ákveðið að Jón Hjaltalín hefði þá frægu ólánskonu Sunnevu Jónsdóttur í gæsluvarðhaldi meðan frekari rannsókn á máli hennar færi fram og hefur hann þá enn notið trausts. Annars kom Jón ekki við atburði á þingi eftir 1738 og ýmislegt bendir til þess að um það leyti hafi tekið að halla undan fæti fyrir honum.
.     Hann komst smám saman í miklar skuldir og olli drykkjuskapur hans eflaust einhverju þar um en áreiðanlega var hann líka linur við að innheimta sakeyri og aðrar sýslutekjur af almúganum. Að lokum flosnaði Jón upp frá Vík árið 1752, sem fyrr segir, og var eftir það til heimilis á Arnarhóli, hjá Silfu dóttur sinni og manni hennar, Gissuri Jónssyni lögréttumanni, og þar andaðist hann öreigi í október 1755. Metta María dó tveim árum síðar, í nóvember 1757 (grafin 14. nóv.), og var þá kennd við Götuhús við Reykjavík.


Formóðir þjóðhöfðingja
Þar með er sagan þó ekki öll því að borgmeistaradóttirin og bóndasonurinn lifa í niðjum sínum. Dagar forfeðranna duna í blóði okkar Íslendinga. Þetta sannar séra Torfi Hjaltalín í Lesbók Morgunblaðsins þann 6. desember sl. með því að taka upp þykkjuna fyrir Víkurhjón eftir tvær og hálfa öld, þykir Pjetur Hafsteinn Lárusson vega ómaklega að þeim í áðurnefndri grein og svarar þessum fjarfrænda sínum með þjósti.
.     "Fáir hafa orðið kynsælli en Hjaltalín gamli" segir Hannes Þorsteinsson, rétt eins og Metta hafi þar hvergi nærri komið. Margir af nánustu niðjum Víkurhjóna urðu verslunar- eða iðnaðarmenn og sumir þeirra fluttust til Danmerkur og fjarlægari staða, jafnvel Indlands. Þetta fólk hafði greinilega einhverja ólgu og ævintýragirnd í blóðinu eins og borgmeistaradóttirin forðum. Jón Espólín áttaði sig á þessu og gat því ekki stillt sig um að rekja þennan frændgarð nokkuð en taldi sér þó skylt að afsaka það: "Vildum vér því ei undanfella at telja þennan frændbálk, þó eigi væri í hann komit margt stórmenni, at hann ægsladist vída, ok kom vid í ýmsum stödum."
.     Áður er þess getið að Jón og Metta áttu fimm ung börn í Effersey árið 1720. Þar á meðal voru Gunnhildur eldri, f. um 1710, Jóhanna, fædd nálægt 1715, og að líkindum Anna en það er áreiðanlegt að a.m.k. tvö af börnunum fimm eru ónefnd og hafa dáið ung.
.     Anna átti Árna Einarsson í Ánanaustum og börn, þar á meðal Einar tinsteypara á Borgundarhólmi. Jóhanna var móðir áðurnefnds Jóns Stefánssonar á Ferstiklu og Árna Jónssonar er sigldi og varð síðan reipslagari og lögréttumaður á Kirkjubóli á Miðnesi. Frá henni er mikill ættbogi, einkum um Suðurnes og Borgarfjörð. Gunnhildur eldri var ein þeirra fimm kvenna sem fyrstar tóku ljósmóðurpróf hér á landi, á Bessastöðum árið 1761. Sonur hennar var Sighvatur Sighvatsson bóndi í Grjóta við Reykjavík, faðir Þorbjargar langömmu Einars Benediktssonar skálds.
.     Af sonum Jóns og Mettu var Oddur elstur, f. um 1722; víkur brátt að nokkrum af niðjum hans. Næst honum að aldri hafa sennilega verið áðurnefnd Silfa á Arnarhóli, líklega f. nál. 1725, Hans og Páll en yngst voru að líkindum Gunnhildur yngri og Níels, bæði fædd um 1729. Oddur var föðurnafn Jóns og Hans föðurnafn Mettu og augljóst er að Páll var heitinn eftir Páli Beyer og Níels í höfuðið á Níelsi Kjær eins og áður er nefnt.
.     Hans "sigldi, lærði látúnssmíði, dó utanlands, ókvæntur" og Páll "sigldi og kvæntist utanlands, átti 2 syni, er voru stýrimenn til Austindía". Gunnhildur yngri átti Sören Davíðsson Grönager, danskan reipslagara á Stapa, og er frá þeim fjöldi manna um Breiðafjörð og víðar. Níels var lögréttumaður í Hlíðarhúsum við Reykjavík. Sonur hans var Eiríkur lögfræðingur og tollgæslumaður í Flensborg, faðir Níelsar Hjaltalíns etatsráðs og afgreiðsluritara á einkaskrifstofu konungs í Kaupmannahöfn.
.     Kunnasti leggur Hjaltalínsættar er kominn frá elsta syninum í Vík, Oddi Hjaltalín bónda og lögréttumanni á Rauðará. Kona hans var Oddný Erlendsdóttir frá Hrólfsskála og komust átta af þrettán börnum þeirra á legg, þar á meðal Guðrún, Hans og Páll sem öll fengust við kaupskap á Vesturlandi, Jón, Jórunn og Rannveig.
.     Jón Oddsson Hjaltalín var prestur á Breiðabólsstað á Skógarströnd og talsvert gott skáld, talinn hafa "glæsilegar gáfur". Synir hans voru Oddur læknir og Jón landlæknir og alþingismaður en niðjar séra Jóns í þriðja lið voru Ólafur Eyjólfsson fyrsti skólastjóri Verslunarskóla Íslands, Jón Hjaltalín Sigurðsson læknir og prófessor og Halldór Hermannsson prófessor í Cornell.
.     Jórunn Oddsdóttir frá Rauðará átti Jón Jónsson faktor á Stapa og síðar bónda í Böðvarsholti í Staðarsveit. Sonur þeirra var Jón í Langey, afi Magdalenu Jónasdóttur í Sauðlauksdal, ömmu Vigdísar Finnbogadóttur forseta.
.     Rannveig Oddsdóttir átti Hjört Eiríksson á Bústöðum. Sonur þeirra var Eiríkur Hjörtsson á Rauðará, afi Hjartar Bjarnasonar á Klukkulandi, langafa Ólafs Ragnars Grímssonar forseta. ­ Á Bessastöðum á Álftanesi stígur Metta Hansdóttir skyndilega fram úr myrkri aldanna og þar gerist saga hennar enn.
.     Gunnhildur yngri var kölluð kóngamóðir og sögð mesti svarkur. Jón Espólín segir frá því að hún gekk á konungsfund og hefur það verið annaðhvort 1756 eða 1757, en þá voru harðindi og hallæri á Íslandi: "Hún fór utan á dögum Friðriks konungs fimta, ok gekk fyrir konúng í íslenzkum kvennbúnadi, sagdi konúngr svo, at honum þótti búnadrinn sélegr, nema kápan svarta ok sykrtopprinn, svo kalladi hann faldinn; hún bad konúnginn um tvær bónir: at módir sín, er ekkja var, fengi vidrlífispeninga, ok bóndi sinn hamp útfærdan árlega til Íslands, til færaspuna, ok heyrdi hann mildilega bádar."
Móðir sem átti slíka dóttur hlaut að verða formóðir þjóðhöfðingja og það fremur tveggja en eins.
Höfundur er prófessor.Halldór Ármann Sigurðsson. Morgunblaðið 14. febrúar, 1998. Lesbókhttp: //www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=382745