Saturday, September 28, 2024

HUGSÝN Í HÁLFA ÖLD! 2024

 HUGSÝN Í HÁLFA ÖLD!
GRAFÍKSALURINN/IPA GALLERY
14.9 til 29.9 2024
Sýningin er blanda af verkum sem kallast á og sýna ákveðna þróun í vinnuferli mínu síðustu árin. Ég hef starfað sleitulaust að list minni í 50 ár, eða allt frá útskrift frá MHÍ 1974. Til að afla tekna og eiga í mig og á hef ég einnig fengist við hönnun, auglýsingagerð, kennslu og námskeiðahald; ég hef verið mjög virk og í góðum tengslum við hjartslátt samfélagsins. Ég vinn með myndraðir, sumar taka áratugi í vinnslu og svo banka gömlu hugmyndirnar uppá aftur og aftur og birtast á ný, þegar þeim sýnist. Ég lærði snemma hagræðið í því að dvelja á vinnustofum erlendis yfir sumartímann, það var ódýrara og ég fékk áhöld og efni sem ekki var til á Íslandi ásamt þeirri gæfu að fá að dvelja á bökkum Signu í heimsborginni París. Verkin mín hafa alltaf verið mjög persónuleg og frá upphafi hafa þau tengst því að vera kona í karlaheimi eða femínisma þrátt fyrir að á þeim tíma var hann ekki til en ofbeldi til kvenna var algengt. Vegna ferðalaga milli landa lagði ég olíumálverkið á hilluna og fór að vinna eingöngu með pappír og litaduft svo farangurinn yrði sem léttastur. Með því tel ég mig einhvern vegin vera í betri tengingu við lifandi efni sem umbreytast og fyrir mér er vatnsliturinn og pappírinn nær náttúrunni, eða lífinu. Þrátt fyrir að ég vinn með næmi og fari inná óþekkt svið náttúrunnar, þá eru alltaf duldar meiningar og pólitískar í verkunum sem ef til vill eru ekki alltaf auðsjáanlegar á yfirborðinu. Undanfarin 25 ár hef ég verið að gera tilraunir með eggtemperu og vatnslit ásamt öðrum efnum, vatnið, flæðið, rotnunin og myglan ásamt að vinna í samvinnu með náttúrunni. Ég geri stöðugar tilraunir með tækni sem er óútreiknanleg eins og náttúran eða lífið og ekkert er eins og það virðist vera. Ég hef ekki hugmynd um á hvaða leið ég er eða hvað ég er, en ekkert er verra í listum en fólk sem veit og kann allt fyrir fram því þá er öll nýsköpunin dauð. Nýsköpun er ekki fengin nema með kvíða, óöryggi og efasemdum.